Sjálfstæði okkar íslendinga og endurnýjun gamla sáttmálans við ESB

Á árunum 1262 til 1918 voru Íslendingar undir hinum svokallaða gamla sáttmála sem gerður var við Hákon Noregskonung. Sáttmála þennan taldi konungur hafa fallið úr gildi með Kópavogsfundinum 1662, en svo varð síðar meir á 19 öld að Jón nokkur Sigurðsson, kallaður Jón forseti andmælti og taldi þennan sáttmála en í gildi og vildi Jón hann afnuminn.

Ef við skoðum gamla sáttmálan aðeins betur þá inniheldur hann þessa klausu og setjum þetta aðeins í samhengi við ESB pælingar okkar íslendinga:

    At vér bjóðum (virðuligum herra) Hákoni konungi hinum kórónaða vára þjónustu undir þá grein laganna, er samþykt er milli konungdómsins ok þegnanna, þeirra er landit byggja.

Erum við ekki að gera það sama með því að lúta að lagabálki ESB og færa hluta ákvörðunarvaldsins þangað? Erum við þá ekki skyld til þess að lúta löggjöf ESB í öllum málum, fiskveiðum, náttúruauðlindum og landbúnaðinn?

Jón forsetiTil hvers var sjálfstæðisbarrátta Jóns forseta, ef við ætlum að framselja það sem við börðumst sem harðast fyrir hér á árum áður? Vissulega þarf að uppfæra stjórnarskrá Íslendinga sem við fengum að gjöf frá Dönum á árum áður, eða nánar tiltekið árið 1874, þegar Kristján IX afhenti okkur plagg sem var kallað:  „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“.

Það lítur út fyrir að margir vilja að sagan endurtaki sig, og er birtingarmyndin að þessu sinni í formi ESB fremur en konungsveldis.

Við verðum að vakna upp frá þessum blundi, og virða þau réttindi sem menn börðust fyrir í sjálfstæðisbarráttunni. Við þurfum ekki að ganga öðru heimsveldi á vald til þess að þeir geti séð um að okkar mál séu þeim að skapi.

Við erum kröftug og sjálfstæð þjóð, og höfum ætíð greitt úr eigin vandamálum sem að okkur hafa steðjað, hvort það sem er hungur, náttúruhamfarir eða sárafátækt, við höfum alltaf mætt vandanum með hnefann krepptan, og unnið bug á honum.

Nú þegar mestu efnahagshamfarir vorrar þjóðar steðja að okkur þá vilja margir flýja vandann og ganga í eina sæng með heimsveldi!? Ég leyfi mér að kalla það heigulshátt og að flýja vandann.

Ég segi nei og aftur nei! Ég er stoltur af þjóðerni mínu, og þykir vænt um land mitt, kannski hljóma ég eins og versti þjóðernissinni, en það verður bara að hafa það. Ég elska Ísland og vil halda í forræði okkar yfir eigin málum.

Því við höfum alla þá hæfileika sem til þarf til þess að leysa vandann, og verðum við að horfast í augu við hann og ráðast að honum að fullum þunga þar til fullnaðar sigri er náð. Þetta getum við og þurfum ekki lagabákn frá heimsveldi til þess að segja okkur fyrir verkum.

Ég hvet alla þá sem þetta lesa og eru að einhverju leiti sammála mér, að skrá sig á ósammála.is og láta rödd sína heyrast. Eða eins og Jón forseti gerði víðfrægt: „Vér mótmælum allir!“ og segjum nei við aðra: „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Segjum nei við ESB aðild!

Góðar stundir og þakka ég lesturinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég tek undir orð Ólafs Ragnars Grímssonar um að bæði sjónarmið í Evrópumálum séu byggð á sterkum grunni og séu bæði góð. Þessi mál verður að nálgast af skynsemi og það gerum við ekki með því að fullyrða að fullveldi Íslands glatist með inngöngu í ESB.

Flest allar lýðræðisþjóðir sem hafa gengið í ESB hafa haldið sjálfstæði sínu en um leið samþykkt að taka þátt í alþjóðasamstarfi. Fráleitt er að ætla að allar þessar 27 þjóðir hafi glatað fullveldi sínu.

Mikilvægt er því að málefnið sé rætt á skynsamlegum grundvelli og leitað sé eftir því hvaða samning ESB hefur í hyggju að bjóða okkur. Þegar tilboð hefur borist er það eina skynsamlega í stöðunni að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu og fá lýðræðislega niðurstöðu um vilja þjóðarinnar.

Hilmar Gunnlaugsson, 17.5.2009 kl. 23:45

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef fyrir löngu síðan skráð mig á ósammála.is  Ég er alfarið á móti ESB, en samt hef ég áhyggjur.  Við erum búin að missa sjálfsstæði okkar til AGS.  Ég vil að AGS láninu verði skilað hið fyrsta, og svo senda samninganefnd til samninga við skuldunauta í útlöndum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.5.2009 kl. 23:52

3 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Hilmar - ég er hér um bil sammála þér, en ég hvergi fullyrt um að við glötum alfarið fullveldi okkar, en er það samt nálagt því. Að öðru leyti er ég sammála þér.

Jón Frímann - og hvar eru svo rökin þín, fyrst þú ert svona vel upplýstur?

Jóna - gott hjá þér að skrá þig, en varðandi AGS var hann því miður nauðsynlegur til þess að einhver þjóð treysti okkur á ný. Vinnubrögðin hjá þeim eru önnur saga.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.5.2009 kl. 00:03

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Með þér í anda þarna, félagi Haukur, einz & í mörgu.

Góður piztill.

Steingrímur Helgason, 18.5.2009 kl. 00:26

5 identicon

Hið versta er að samfylkingin kyndir undir aumingjaskap og ómennsku með því að bíða þess eins og þjóðarskútan verði tekin í ESB tog.

Í gamla daga hefði verið sagt: Hundskist út til að vinna fyrir saltinu í grautinn í stað þess að grenja og bíða eftir að aflinn dragi sig sjálfur að landi

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 01:24

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill.

Hjartanlega sammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 18.5.2009 kl. 01:58

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég þakka þér fyrir pistilinn. Skemmtilegt að lesa hann og sjá að það eru fleiri að vekja athygli á ósammála.is

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.5.2009 kl. 03:49

8 identicon

Af hverju berjast kristnir svo mikið gegn ESB... jú þeir telja þetta vera guðlaust samband... tower of babel...
Ef ESB væru með krossa og Sússa í öllu, þá er ég hræddur um apð kristnir væru óðir í að skella sér í sambandið.

Faktískt bara hræddir um að Sússi gleymist algerlega.... talandi um sjálfstæði... ef ESB segði eins og Sússi.. komið til okkar eða þið verðið pyntuð... :)

DoctorE (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 09:03

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hún er nú athyglisverð kenningin um að Gamli Sáttmáli sé miklu yngri en almennt hefur verið álitið, þ.e. að ísl. hafi hreinlega búið hann til löngu seinna.  Frumleg tilgáta og óvænt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.5.2009 kl. 09:58

10 identicon

Talandi um sjálfstæði... hér voru útvaldir menn sem áttu allt, útvaldir menn sem áttu fiskinn í sjónum.
Er þetta það sjálfstæði sem menn eru að tala um... mun ESB gera hlutina verri eða betri... eru margir stjórnmálamenn á móti ESB því þá verður betur fylgst með þeim.. og líklega léttara að sækja þá til saka.

DoctorE (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:01

11 identicon

Mjög góður pistill Guðsteinn og fullur af fróðleik og tilfinningum.

Tilfinningar í þessum málum þola ESB sinnar eins og Jón Frímann alls ekki og tala þá um algjört rökþrot.

Auðvitað þurfum við rök í þessu máli eins og öðrum og af þeim er nóg sem mæla flestar gegn ESB aðild. 

En ef við hlustum ekki á tilfinningar okkar eða jafnvel bönnum þær þá er illa komið fyrir okkur.  

En þessi fortakslausa rökhyggja án tilfinninga, er alveg í anda þessa yfirgengilega ESB embættismanna hugsunarháttar sem trúir því af öllum mætti að andlitslaus sérfræðingaveldi embættismnnanna í Brussel geti haft vit fyrir okkur í öllum sköpuðum hlutum með sínum tilskipunum og allt umvefjandi sérfræðingaveldi.

Slík blinduð trú á kerfi og það án tilfinninga er heimska og hefur alltaf leitt til glötunar !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:09

12 identicon

Alltaf skulu ESB-sinnar og Samfylkingarfólk koma með svör eins og; "rökþrota", "dylgjur", "ekki svaravert",  "greindarskort", eða "ekki svaraverð gagngrýni" þegar þessu fólki er svarað eða því á einhvern hátt andmælt, sbr. Jón Frímann hér að ofan.  

Fyrst að fólk vill endilega að við förum í ESB, áttum við þá nokkurn tímann að slíta sambandinu við Dani árið 1944? 

Þegar við vorum í sambandi við Dani á sínum tíma, höfðum við sömu stöðu og við munum hafa þegar við göngum í ESB.

Hefðum við verið áfram í sambandi við Dani, þá hefðum við gengið sjálfkrafa í ESB um leið og Danir árið 1973.

ESB er kratísk stofnun og er sniðin að hugmyndafræði Krata (svokallaðra Jafnaðarmanna) um forræðishyggju yfirvalda yfir fólkinu.  Hugmyndafræðin gengur út á það að venjulegir borgarar hugsi ekki rökrétt né af skynsemi, og því þurfi æðra yfirvald að hugsa fyrir borgarana og taka ákvarðanir fyrir fólk og stjórna gerðum þess með miðstýrðu valdboði, í formi tilskipana og reglugerða. 

Þeir sem eiga á framfylgja þessu valdboði eru nefndir;  sendifulltrúar, ráðgjafar og sérfræðingar, eða einu nafni; embættismenn ESB.

Var þá bara ekki ágætt fyrir okkur að vera áfram í sambandi við Dani og lúta valdboði þeirra.  Það sama mun nefnilega verða upp á teningnum þegar við göngum í ESB.

Halldór Jón Hallgeirsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:22

13 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég er innilega sammála því að Ísland sé best sett sem sjálfstæð eining milli efnahagsbandalaga. En mér finnstafskaplega leiðinlegt að vera ósammála og skrifa helst ekki undir pappíra sem bera slíka yfirskrift hversu sammála sem ég annars er innihaldinu.

Ásgeir Rúnar Helgason, 18.5.2009 kl. 10:31

14 identicon

Það er vel hugsanlegt að íslendingar séu ekki færir um að sjá um sig sjálfir... það eiginlega blasir við

DoctorE (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:42

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Öll ríki evrópu eru ósjálfstæð.  Nema ísland og Noregur.  Hvert og eitt einasta.  Hafa öll misst "sjálfstæði" sitt.  Þýskaland og Frakkland eru ekki sjálfstæð ríki.  Danmörk Svíþjóð og Finnland.  Öll undir hæl ESB.  Hins mikla Satans !

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.5.2009 kl. 10:43

16 identicon

Pistillinn er klassískt dæmi um það hvernig sagan er (mis)notuð til að styðja pólitíska skoðun. Í fyrsta lagi eru ýmsir sagnfræðingar nú á því að Gamli sáttmáli, eins og við þekkjum hann í heimildum, hafi verið síðari tíma tilbúningur (sjá Patricia Pires Boulhosa, Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur. Smárit Sögufélags, 2006) og enginn nútímasagnfræðingur myndi skrifa nú upp á pólitíska túlkun Jóns Sigurðssonar á honum. Í öðru lagi yrðu samningar við ESB á engan hátt sambærilegir við samning eins og Gamla sáttmála (þ.e.a.s. ef sá samningur var til). GS snerist um það að koma á ríkisvaldi á Íslandi, og var þá gerður við erlendan konung. ESB er hvorki ríki né heimsveldi, hversu oft sem því er haldið fram, heldur samband sjálfstæðra og fullvalda ríkja sem vinna saman að ýmsum málum. Það er alls ekkert sérstakt merki um þjóðarstolt að neita því að vinna með öðrum, heldur ber það frekar merki um minnimáttarkennd lítillar þjóðar. Eins felst enginn flótti í því að vilja koma íslensku efnahagslífi á fastan grundvöll með alþjóðlegu samstarfi -- neitt frekar en að inngangan í NATÓ var landráð. Allt um það, hættum að vefja okkur í klisjur úreltrar söguskoðunar og ræðum málin á grundvelli þekkingar.

GH (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:50

17 identicon

Góð færsla hjá þér Guðsteinn minn. Hafðu það sem best vinur.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 12:18

18 identicon

Ég hugsa að félagi Guðsteinn sé búinn að horfa of oft á "Nauðgun Evrópu" á Omega.
Ég vil líka að ríkið taki á Omega.. Omega er með pólítískan áróður og sem slík á Omega ekki að fá neina fyrirgreiðslu.. engir trúarhópar sem eru með pólitískan áróður eiga að fá ívilnanir frá ríki.

DoctorE (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 12:23

19 Smámynd: halkatla

Þetta er æðisleg grein og þú hljómar einmitt einsog "versti þjóðernissinni"

halkatla, 18.5.2009 kl. 13:01

20 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Dokksi - ég hef bara séð brot af þessum þætti sem þú talar um, og tel ég hann ofsafenginn til þess að standast. það er ekki út frá honum sem ég dæmi, og veit um marga kristna sem eru afar hlynntir ESB.

Svo segja menn að ég sé rökþrota, en það tel ég ekki vera. Rök mín byggja vissulega á staðreyndum, og þegar staðreyndirnar eru óréttlátar þá dæmi ég út frá því. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.5.2009 kl. 13:53

21 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Öllum öðrum þakka ég innlitið og athugasemdir.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.5.2009 kl. 13:54

22 Smámynd: Páll Jónsson

Bendi mönnum annars á þáttinn á Omega sem DoctorE vísar í, a.m.k. ef þetta er sami þáttur og ég sá þar um daginn.

Manni verkjar enn í hökuna, hún skall svo oft í gólfið. Framleiðendur hans eru einfaldlega hælismatur, punktur og basta.

Páll Jónsson, 18.5.2009 kl. 18:27

23 Smámynd: Linda

Navíismin hjá sumum hér inni er alveg skelfilegur, hver getur hugsað sér að selja sig eins og raun ber vitni í orðum og huga þeirra sem eru ESB sinnar.  Málið gengur út á frelsi, sjálfstæði, sjálfstæða hugsun og hugsjón, gengur út á að Ísland verði sjálfstætt áfram, við neitum að verða þrælar aftur, við neitum að ganga í ESB www.osamala.is við skiljum að frelsi er það dýrmæddasta sem við eigum, og við erum ekki tilbúin að kasta baráttu forfeðra okkar fyrir bý.

Linda, 18.5.2009 kl. 18:39

24 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Ég óttast að við missum mikið af sjálfstæði okkar við inngöngu en vildi gjarnan fá hlutlausan bækling til kynningar sem fjallaði ýtarlega um alla kostina og gallana.

Nú erum við sem betur fer með stjórnvöld sem eru með andstæðar skoðanir á þessu máli og því meiri líkur á að maður fái réttar og hlutlausar upplýsingar um þetta þegar þar að kemur. Það ættu því að vera minni líkur á að maður fái einhliða jákvæðar eða neikvæðar upplýsingar.

Svo er það bara spurningin um smáaletrið hjá ESB, hvort þeir áskili sér rétt til að breyta einhverju fyrirvaralaust eða túlka eitthvað á sinn hátt.... (ein tortryggin eftir tryggingarfélögin).

Bryndís Böðvarsdóttir, 18.5.2009 kl. 18:42

25 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Frábær pistill hjá þér Haukur.

Sigurður Þórðarson, 18.5.2009 kl. 20:12

26 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Ég tek undir hvert orð sem GH segir hér að ofan. Þetta er löngu úrelt söguskoðun og fráleitt að líkja þessu við Evrópusambandið. Klisjurnar um gullöldina þangað til við höfum "beygt okkur undir Noregskonung" með tilherandi hallæri og fátækt þangað til við "risum upp og urðum sjálfstæð" eru alltaf jafn kjánalegar, sérstaklega þegar hún er notuð í sömu andrá og ESB. Finndu frekar önnur rök Guðsteinn.

Kristján Hrannar Pálsson, 18.5.2009 kl. 20:48

27 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þarf þjóðin að endurtaka mistök sín?   Fram til 1262 voru forfeður okkar í góðum málum; höfðu nóg að bíta og brenna og áttu hafskip sem flutti spekinga út og suður; til Vínlands, Rómar og til  bústaðar Noregskonungs til þess að flytja honum drápur.  

Hundrað árum seinna átti þjóðin engin haffær skip, íbúarnir orðnir kotungar, sem áður áttu myndarleg híbýli höfðu skriðið inn í moldarkofa og steinhella.  Í rauninni er hreint kraftaverk að forfeður okkar lifðu af þá tíma sem tóku við hér á landi eftir að Gamli Sáttmáli var gerður.  Hjálendan á Grænlandi hvarf svo gersamlega að enginn sagnfræðingur getur útskýrt hvað varð um íslensku landnemana þar.

Söguskoðun úreldist aldrei - amk ekki ef raunveruleikinn er hafður að leiðarljósi.  Sá maður sem þekkir ekki uppruna sinn og sögu forfeðra sinna er eins og laufblað á tré sem veit ekki að það tilheyrir trénu.

Kolbrún Hilmars, 18.5.2009 kl. 21:30

28 identicon

„ESB er hvorki ríki né heimsveldi, hversu oft sem því er haldið fram, heldur samband sjálfstæðra og fullvalda ríkja sem vinna saman að ýmsum málum.“ - GH (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:50

ESB hefur tekið sér fullveldisrétt aðildarríkja sinna í fjöldamörgum málum. Með samþykkt Lissabonsáttmálans mun ESB fara með einkarétt í lagasetningu á mörgum sviðum og í öllum tilvikum hafa lög þess forgang yfir lög einstakra aðildarríkja.

Samband aðildarríkja við ESB er því áþekkt sambandi einstakra sveitarfélaga við ríkisstjórn.

Sérfræðingar í stjórnskipunarrétti eru einhuga um það, að aðild/innlimun Íslands í ESB krefðist breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins. Þ.e.a.s. færi það lögformlega fram.

Aðild Íslands að hernaðarbandalagi Norður Atlantshafs hafði á hinn bóginn ekki í för með sér neinar kvaðir eða „yfirþjóðlega“ lagasetningu. Aðildarríkin áttu og hafa sjálfdæmi um hvers konar aðstoð þeir veita bandamönnum sínum verði hennar þörf.

„Klisjurnar um gullöldina þangað til við höfum "beygt okkur undir Noregskonung" með tilherandi hallæri og fátækt þangað til við "risum upp og urðum sjálfstæð" eru alltaf jafn kjánalegar, sérstaklega þegar hún er notuð í sömu andrá og ESB.“ - Kristján Hrannar Pálsson, 18.5.2009 kl. 20:48

Hallæri og fátækt fylgdu fyrst og fremst sérstökum stjórnvaldsaðgerðum hins erlenda ríkisvalds á Íslandi upp úr miðri 16.öld. En þær leiddu til mikils útflutnings á hreyfanlegu fjármagni úr landi og berskjölduðu landið (að hluta a.m.k.) fyrir ofbeldi þriðju aðila. Áætlanir sem átti að framkvæma samhliða þessu um nútímavæðingu íslensks þjóðfélags frestuðust hinsvegar í reynd um þrjár aldir, þar sem að Kristján konungur þriðji, sem stóð fyrir þessu féll frá.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 21:31

29 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Allt tal um = merki milli GS og versnandi lífskjara á íslandi er kjaftæði frá a-ö.   Saga sem búin var til í svokallaðri sjálfstæðisbaráttu, þ.e. pólitísk sagnfræði.

Ástæða versnandi lífskjara var einfaldlega versnandi veðurfar auk þess sem innbyggjarar voru búnir að fara illa með landið, eyddu skógum og kjarri sem orsakaði uppblástur.

Nú, það sem gerði síðan illt verra í framhaldinu var ótrúleg íhaldsemi þvergirðingsháttur og einangrunarhyggja ráðamanna á íslendi (því íslenskir höfðingjar réðu öllu á íslandi sem þeir vildu á annað borð ráða)  Stórbændur hnepptu faktískt innbyggjara í þrældóm.  Urðu nánast ánauðugt vinnuafl.  Þannig vilu íslenskir ráðamenn hafa þetta og engu mátti breyta. 

Ekki einn einasti alvöru sagnfræðingur í dag tekur undir sagnfræði Jónasar frá Hriflu lengur.  Vondir útlendingar komu með maðkað mjöl etc. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.5.2009 kl. 22:42

30 identicon

Leyfi mér að leiðrétta: Hallæri og fátækt var fyrst og fremst afleiðing hnignandi búskapargæða vegna erfiðrar náttúru. Jarðumbrota, kólnandi veðurfars og ísa. Allar aðrar skýringar eru meira eða minna leifar gamals sjálfstæðisáróðurs sem tími er til komin að fjarlægja úr sögubókum og huga fólks.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 22:45

31 identicon

Þú varst á undan mér Ómar :-)

Thor Svensson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 22:47

32 identicon

Ómar og Thor:

Hafði það þá engin áhrif að það félaglega stuðningsskerfi, sem kirkjan hafði myndað hvarf í einni svipan, án þess að skattbyrðin sem íslenskir bændur þurftu að standa undir til að halda kirkjunni uppi minnkaði?

Þ.e.a.s. að skyndilega þurftu bændur að halda uppi hundruðum ómaga sem áður lágu á kirkjunni án þess að fá til þess nokkurn stuðning.

Hafðu aukin sjórán og fjárkúganir heldur engin vond áhrif?

Vissulega myndu fáir sagnfræðingar halda því fram að óhamingja Íslendinga væri orsökuð af illsku Dana. En þrátt fyrir það hafði báðir bara hálfrétt fyrir ykkur.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:08

33 identicon

En get bætt eftirfarandi við:

Í doktorsritgerð Björns Lárussonar hagsögufræðings í Lundi frá 1967 koma fram útreikningar á skiptingu jarðeigna á Íslandi við lok 17. aldar. Þar kemur ótvírætt fram á að nær allar jarðir á Íslandi voru í leigu nálægt aldamótunum 1700 (um 96% heimila nýttu ekki eigið eignarland) og að eignarhaldi jarða í einkaeigu var mjög misskipt - um 7% landeigenda áttu um 45% jarðeigna í einkaeigu. Niðurstaða hans um þetta efni var sú að stóreignafólkið hafi flest verið skylt innbyrðis og með inngiftingum hafi því tekist að halda eignum sínum innan örfárra ætta.

Sænski sagnfræðingurinn Harald Gustafsson, sem kannað hefur stjórnkerfi einveldistímans á Íslandi hafnar einnig í doktorsritgerð sinni skoðun manna um að þjóðin hafi öll verið niðurbrotin í fátækt undir áþján danskrar einokunar. Þess talar hann um sameinaða valdastétt, "den isländska eliten" eins og hann nefnir hana. Stétt eins konar landeigendaaðals sem stjórnað landinu í krafti auðæfa sinna og réði bæði yfir eignum og helstu valdastofnunum samfélagsins. Í krafti stöðu sinnar stjórnaði valdastéttin miðlun upplýsinga á milli ríkismiðjunnar og Íslands, og gat á þann hátt ráðið lagasetningu og aðgerðum ríkisins hvað Ísland varðaði.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:09

34 Smámynd: Páll Jónsson

Hah! Þjóðrembuáróðurinn fljótur að bráðna í ljósi raunveruleikans

Páll Jónsson, 18.5.2009 kl. 23:20

35 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ómar og Thor, þið fjarlægið þá bara það úr sögubókum landans og hugum fólks sem ykkur hentar, ekki síst hinum svínslega sjálfstæðisáróðri Fjölnismanna og Jóns forseta - það var vissulega ófyrirgefanlegt að yfirgefa danska konungsveldið.

En; hvernig gat Jónas frá Hriflu skipt sér af sjálfstæðismálunum hálfri öld áður en hann fæddist?

Kolbrún Hilmars, 18.5.2009 kl. 23:29

36 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

smá misskilningur.

árið 1262 gengu Íslendinngar konungi á hönd, án skilyrða. gerðust þar með undirlægjur hans.

varðandi ESB er verið að tala um samning sem verði ekki ásættanlegur mun verða hafnað af þjóðinni.

þú berð saman epli og appelsínur.

Brjánn Guðjónsson, 18.5.2009 kl. 23:38

37 identicon

Pétur. Það hefur vissulega haft áhrif á fátæklinganna að félagslega kerfi kirkjunar, sem þú nefnir það, minnkaði. En harla lítil áhrif hefur það haft á stóreignafólkið. Sjórán er einnig hverfandi áhrifavaldur þegar litið er á stöðu þjóðarinnar í heild sinni. Fjárkúgunin sem þú nefnir geri ég ráð fyrir að sé tíund kirkjunnar á stóreignabændur. Eða hvað?

Kolbrún, Það er verið að tala um pólitíska söguskoðun Jónasar frá Hriflu. Annars er ekkert ófyrigefanlegt í að hafa yfirgefið danska konungsveldið. Veit ekki afhverju þú gerir mér upp þá skoðun. En við megum ekki og eigum ekki að rugla saman sögu og ævagömlum áróðri.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:46

38 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Thor, þú vitnar þarna í doktorsritgerð sem væntanlega er hlutlaust unnin og rétt, en við hverju mátti búast eftir 400 ára yfirráð erlends yfirvalds?  Það var konungsvaldið sem veitti mönnum fríðindi og embætti  og sumir hafa alltaf verið flinkari en aðrir að koma sér vel fyrir.  Hefði hér verið almennilegt lýðræði hefði slíkt misrétti aldrei viðgengist.  

Og loksins þegar þessu misrétti hefur verið hnekkt, þá geta menn ekki beðið eftir að komast aftur undir erlend yfirráð og endurtaka leikinn. 

Kolbrún Hilmars, 18.5.2009 kl. 23:46

39 identicon

Kolbrún, þú hefur ekki lesið það sem ég og Ómar skrifaði. Slæmu yfirráðin voru ekki erlend heldur innlend!

Thor Svensson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:50

40 identicon

Thor.

Hafi þetta verið svar við einhverjum spurningum, eða sönnun á vandaðri stjórnsýslu Dana, þá veit ég ekki hvað.

Einkenni stjórnartíðar konungsvaldsins fram á 18.öld er tímabundin yfirgnæfandi valdbeiting til tryggingar danskra hagsmuna, en þess á milli er innlenda valdastéttin með frítt spil.

Gallinn við innlendu valdastéttina þegar fram er komið á 18. öldina er sú að hún heldur ekki uppi landvörnum (nema þá kannski staðbundnum vörnum utan danska efnahagssvæðisins á suðvestur horninu), heilbrigðis eða félaglegu stuðningsskerfi. 

Konungsstjórnin sér vissulega oftast fyrir tímabundnum landvörnum yfir sumartímann, sem ekki er síður ætlaðar til að koma í veg fyrir hagkvæmari verslun almennings við utanríkismenn. En nær engar tilraunir eru gerðar til að koma á  spítölum eða annarri þjónustu sem þekktist annars staðar í konungsríkinu fyrr en á 19. öld.

Að halda því fram að „slæmu yfirráðin“ hafi verið innlend er að horfa algerlega fram hjá því hvert skattféð og aðrar tekjur fóru.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:57

41 identicon

Nei, Pétur þetta var ekki nein sönnun um góða stjórnsýslu Dana. Kannski þvert á móti. Ég á bara við að vandmálin ofan á erfiða náttúru, voru heimatilbúin. Einokun er ljótt orð með nútímaskoðun. En þannig gengu kaupin á eyrinni fyrir sig í þá daga. Ekki bara á Íslandi.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:06

42 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Thor, ég las það sem þú skrifaðir og tók mark á því -  en last þú það sem ég skrifaði? 

"Það var konungsvaldið sem veitti mönnum fríðindi og embætti  og sumir hafa alltaf verið flinkari en aðrir að koma sér vel fyrir."  

Mannlegt eðli er samt við sig og að mínu mati mun  hvorki tími né staðsetning breyta því.  Sjáðu bara hvað útrásarvíkingar gátu gert á örfáum árum í skjóli EES laganna.

Kolbrún Hilmars, 19.5.2009 kl. 00:11

43 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Allt rétt sem Thor segir. 

Þarf ekkert að deila um þetta og þeir sem ætla að halda sér við gömlu útgáfuna: "vondir útlendingar" voru "rosa vondir" etc,   verða auðvitað að eiga það við sig.  En enginn sem kynnt hefur sér umrædd mál tekur undir skoðanir þeirra.  Ekki nokkur.

Kolbrún, Jónas byggði á gömlu söguskoðuninni og færði í afar eifaldann búning og bækur hans voru kenndar í tugi ára í skólum (held að það sé alveg hætt að nota þær sem kennsluefni núna)  og er í mínum huga nokkurskonar samnefnari fyrir gamla skólann. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.5.2009 kl. 00:16

44 identicon

Saga Danska konungsveldisins frá miðri 18 öld fram á 19 öld, og kannski enn lengra, gæti að hluta skýrt lélegt stjórnsýslueftirlit hér á landi. En aftur, það voru íslensku valdastéttirnar sem miðluðu upplýsingum og sáu um verklegu stjórnsýsluna. Kúgunin var innlend!

Ég er fullkomlega sammála þeim texta sem þú framhefur í síðustu athugasemd Kolbrún!

Thor Svensson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:19

45 identicon

Thor.

Ekki er hægt að neita því að til hafi verið einhver heimatilbúin vandamál. En endanleg ábyrgð á hegðun umboðsmanna konungsvaldsins er þess sjálfs, enda var vald þeirra aðeins til í skjóli þess.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:23

46 identicon

Ég er ekki sammála orðunum "enda var vald (kúgun?) þeirra aðeins til í skjóli þess (konungsvaldsins)". Þvert á móti hef ég reynt að sýna fram á hið gagnstæða. Ég get þó vel fallist á slapt stjórnsýslueftirlit Dana þessa tíma. En ekki meinta kúgun!

Gæti vel haldið þessum ágætu skoðanaskiptum áfram. En held að ég láti staðar numið að sinni. Þökk fyrir og góðar stundir.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:38

47 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Mér verður hugsað til Eystrasaltsríkjanna. Eftir áratugi undir hæl Sovétríkjanna sálugu öðlast þau loks sjálfstæði. Og hvað er það fyrsta sem þessar nýsjálfstæðu þjóðir gera? Jú, sækja um aðild að Evrópusambandinu! Af hverju ætli það hafi verið? Varla til að gefa frá sér sitt verðmæta nýfengna sjálfstæði sem JBH ráðherra fyrstur viðurkenndi? Og þetta eru ekki einu dæmin um "nýjar" Evrópuþjóðir sem vilja inn í ESB.
Þessar staðreyndir tala miklu skýrar en þessi móðursýkislegu upphrópanir andstæðinga um "afsal sjálfstæðis", "innlimun Íslands" og "fórn fullveldisins".

Páll Geir Bjarnason, 19.5.2009 kl. 01:02

48 identicon

Persónulega tek ég ekki mark á kristnum sem hafna ESB, segja að við missum sjálfstæðið.
Þetta sama fólk sækir hvað mest í algert einræði hjá yfirnáttúrulega geimgaldrakarlinum....  sem segir að kristnir eru tilbúnir í hvað sem er ef þeir fá nægilega borgun fyrir að horfa framhjá einræði og hryllingi.

DoctorE (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:43

49 identicon

Dokksi minn. Ég held barasta að þú sért fylgjandi ESB því ákveðnir trúarhópar trúa að Satan hafi stofnað samtökin

Umræðan þarf annan farveg en svo þótt vissulega megi tengja skrifræðisbákn við djöfulgang hverskonar.

Það yrði einfaldlega algjör aumingjaskapur af þjóðinni að flýja til ESB áður en svo mikið sem brunabótamat liggi fyrir vegna rústanna.

Og þeir sem halla sér í þá átt verða ritaðir sem föðurlandssvikarar í sögubækur framtíðar. 

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 14:58

50 identicon

Ég hef aldrei sagst fylgjandi ESB... ég vildi helst sleppa við það EN ef það myndi gefa mér og mínum betri lífskjör.. meiri möguleika þá er ég til í að skoða málið.
Íslensk þjóð hefur nefnilega verið blóðmjólkuð af örfáum íslendingum.... ég eiginlega treysti ekki íslendingum, þeir eru svo samansaumaðir og gráðugir

DoctorE (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 15:12

51 Smámynd: Kolbrún Hilmars

DoktorE, fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla! 

Íslendingar eru hvorki gráðugri né spilltari en aðrar þjóðir.  Ef nokkuð er þá ætti okkur að reynast auðveldara að halda okkar græðgismönnum á mottunni vegna fámennis og skyldleika - en þá verðum við öll auðvitað að passa upp á lýðræðið. 

Hvað ertu annars að blanda trúarbrögðum inn í sjálfstæðismálið?  Eru prestar þjóðkirkjunnar, "umboðsmenn hins yfirnáttúrulega galdrakarls" eins og þú nefnir það,  í hópi útrásarvíkinga og nýríkra fyrrverandi kvótagreifa?

Kolbrún Hilmars, 19.5.2009 kl. 16:15

52 identicon

Jú ég held að íslendingar séu með gráðugustu og spilltari mönnum í heiminum... ekki allir en þessir svívirðulegu menn vinna með eitt aðaleinkenni íslendinga... að vera góðir ef þeir geta fengið nóg af lánum og svoleiðis.

Það er hópur af kristnum sem eru heilaþvegnir á Omega og öðrum trúarnöttastöðum... þeir halda að Tower of babilon sé ESB... þeir segja að guddi hafi varað við þessu....hvern fjandan er guddi að vara við einhverju.. hann er með eitthvað plan.. .accept the plan and stop crying like a baby.

Prestar ríkiskirkju soga til sín ~6000 milljónir árlega, þetta er tekið úr vösum íslendinga... til að halda uppi mönnum sem dýrka ímyndaðan fjöldamorðingja sem pyntar alla sem fíla hann ekki.
Nú er svo komið að fólk kallar þessa svindlmaskínu HEFÐ ghahahahaha... þvílíkt rugl. :)

DoctorE (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 17:05

53 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Guðsteinn minn

Var búin að lesa pistillinn og þá voru komnar fáeinar athugasemdir. Nú hefur þeim aldeilis fjölgað og það er hörku fjör.

Ég er ánægð með pistilinn þinn.

Nei = ESB

Guð veri með þér og þínum

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.5.2009 kl. 17:41

54 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll aftur DoktorE.  Ertu í rauninni ekki bara á móti til þess að vera á móti? 

Það er dagljóst að sumir eru gráðugri en aðrir, en svo ég vitni beint í þig:  "ekki allir en þessir svívirðulegu menn vinna með eitt aðaleinkenni íslendinga... að vera góðir ef þeir geta fengið nóg af lánum og svoleiðis"    

Mér sýnist þú ekki vera að sneiða neitt sérstaklega að trúarsinnuðum, hvort sem þeir aðhyllast kristni, múhammeðs, ása, búddha, hindú, taó eða hreinlega ekkert. 

Áttu þarna við fjölskyldufólkið sem datt í lánagildruna?  Eða útrásarvíkingana og þeirra græðgislið sem var gefið frítt spil með afkomu íslensks almennings?  

Kolbrún Hilmars, 19.5.2009 kl. 18:05

55 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Guðsteinn, að lokum -  síðbúin afsökun til þín fyrir yfirgang minn hér í þessari umræðu með þakklæti fyrir gestrisnina 

Kolbrún Hilmars, 19.5.2009 kl. 18:16

56 identicon

Sko ímyndaðir vinir hjá krökkum geta hjálpað í þroska þess... að fullorðnir séu með ímyndaða víni sem eitthvað fornt batterí bjó til...þetta batterí sé með eitthvað dogma sem það ætlast til að þjóðfélagið dansi eftir.. og pungi út seðlum.. ég er ekki sáttur við slíkt.
Mér gæti ekki verið minna saman um fólk sem er að iðka trú sína með sjálfu sér.. án bóka eða innprentunar...
Málið er nefnilega að hver sá sem segir þér að hann viti eitthvað meira um guði en þú sjálf(ur) veist... er einfaldlega að ljúga að þér, að hafa þig að féþúfu, svona hugarvírus..
Þessi þörf sem sumir hafa á svona ímynduðum vini er einhver rest af hjarðdýrseðli manna.... ekki láta nota þig, það er akkúrat það sem skipulögð trúarbrögð gera... enda kalla þau ykkur fyrir sauði,

DoctorE (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 19:49

57 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Allt í góðu Kolbrún, vertu velkominn.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 19.5.2009 kl. 22:25

58 Smámynd: Kommentarinn

Doktorinn er ekkert að rugla þó honum takist alltaf að koma trúmálum inn í umræðuna. Það er samt fullt af kristum nötturum þarna úti sem eru aðallega á móti ESB því að það sé trúlaus stofnun. Burtséð frá gagnsemi ESB þá á trú allavega ekki að vera áhrifavaldur. Við ættum að skilja þjóðkirkjuna frá ríkinu (og spara okkur nokkrar grilljónir)þá er þetta allavega ekki issue.

ég veit ekki með fullyrðinguna að Íslendingar séu ekkert spilltari en aðrir.. það á kannski við þegar borið er saman við heiminn en það hefur margoft komið fram að Íslendingar eru mun spilltari en þær þjóðir sem við berum okkur saman við sitthvorum megin Atlantshafsins. Að miklu leiti vegna þess hvað við erum duglegir við að gera frændum greiða t.d. þegar verið er að ráða í feitar stöður...

Kommentarinn, 19.5.2009 kl. 22:38

59 identicon

Gaman að benda ykkur á að nú er einn týndur hlekkur fundin....
Þróunarkenning var svo sönnuð að það hálfa væri nóg.. .nú bætist þetta við.... og þið trúið enn á galdrakarlinn :)
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/880831/

Where is your god now? :)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 10:08

60 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Doksi, enn við sama heygarðshornið?  Þessi umræða snýst ekki um trúarbrögð - þú ert svo sannarlega réttur maður á röngum stað

Kolbrún Hilmars, 20.5.2009 kl. 18:21

61 identicon

Jú trúarbrögð eiga víst við hér.... skoðaðu bloggið.. kikkaðu á Omega... áróður margra krissa byggir á einhverju bulli sem menn fá í hausinn við að lesa biblíu.... biblíu sem var skálduð upp að mestu leiti af kaþólikkum... you are catholics folks... thats all you are.

Verið nú manneskjur, setjum manneskjur í fyrsta sæti

DoctorE (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 10:16

62 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mér finnst allt of miklar málalengjur í ósammála skilyrðunum. Ég vil ekki ESB og no but's or iff´s reyndu að orða þetta á einfaldan hátt. Engar viðræður enga aðild. Já við því. 

Valdimar Samúelsson, 21.5.2009 kl. 19:44

63 identicon

Viðræður eru alltaf góðar... engar viðræður alltaf slæmar
Ekki vera í þessu dómsdags dæmi fyrirfram

DoctorE (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 21:13

64 identicon

Án viðræðna veist þú ekki hvað er í boði... keep talking is the magic

DoctorE (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 11:41

65 identicon

Takk Guðsteinn fyrir þarfan pistil

Menn eru algjörlega blindir ef þeir halda að 300þús manna eyríki hafi eitthvað að segja í jafnstóru bandalagi og EB. Íslendingar halda alltaf að þeir fái eitthvað sérstakt og sérstaka meðferð. Grasið er ekki grænna hinum megin. Segjum nei við EB nema að við viljum verða borg í hinu nýja ríki!!!

Blessaður Dokorinn er eflaust trúaður. Þetta er bara hans leið að spyrja spurninga. Haltu bara áfram vinur Guð elskar þig. Svo gæti D kannski tekið huluna frá og komið undir réttu nafni. Það væri gaman.

Guð blessi ykkur öll

Heilbrigðar umræður eru af hinu góða, skítkast er betur geymt í huga höfundar

Stefan (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:51

66 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Jón Frímann sýndi og sannaði á moggablogginu sínu að hann skilur hvorki meiningu orðsins "fasismi" eða "ritskoðun". Því kemur það ekki á óvart að hann skilji illa meiningu orðsins"rökþrot".

Lesið endilega vel ígrundaða grein hans um áróðursstarfsemi Rúv gegn ESB:

http://www.jonfr.com/?p=1757#comments

Ingvar Valgeirsson, 22.5.2009 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Guðsteinn Haukur

Guðsteinn Haukur Barkarson
Guðsteinn Haukur Barkarson

"Our life is a gift from God,
what we do with that life,
is our gift to God"

Höf. óþekktur

Sjá höfundasíðu fyrir ákveðna skilmála og upplýsingar um bloggarann 

Önnur snilld...

Hvaða þjóðir heimsækja þetta blogg?

free counters

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Skoðanna könnun

Á að aðskilja ríki og kirkju?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband