Spurt og Svarað um trú: Trúaður svarar

Ég ætla gera heiðarlega tilraun til þess að útskýra af hverju ég er trúaður, og um leið svara nokkrum spurningum sem hafa birst í öðrum greinum hjá mér og í daglegu lífi.


„Af hverju trúir þú á æðri mátt?"

Mitt svar:Jesús
Friður, hver mannsál leitar eftir svo kölluðum "innrifrið" alla sína ævi, og eru til óteljandi vegir í þeirri leit. Það tómarúm sem er í hjarta hvers er nefnilega hægt að fylla.

Ef við tökum mig sjálfan sem dæmi, hef alltaf verið mjög feiminn, og oft á tíðum erfitt að skilja hvað ég segi sökum þessarar feimni og verð fremur lágmæltur. Þetta er einn af fjölmörgum kostum við að eiga Guð að sem vin. En ég tek fram, að þetta vandamál er léttvægt miðað við marga aðra. Ég komst til trúar sökum sannfæringar ekki vegna vandamála í eigin lífi.

Eins ef t.d. dauðsfall, slys eða aðrar hörmungar banka uppá, þá leitar niðurbrotinn sála mín á náðir Guðs til huggunar, og bregst það aldrei að Guð huggar mig í sárum mínum, og í gengum bænina vinn ég úr vandamálum mínum.

„Af hverju trúir þú á „Grimmann" Guð Gamla testimenntisins?"

Mitt svar:
Horfa verður á allar staðreyndir til þess að skilja Gamla testamenntið (GT). Líta á allar aðstæður þess tíma, umhverfið siði og venjur hvers tíma fyrir sig.

Margur guðleysinginn hendir því framan í trúað fólk að Guð leyfi nauðganir og að taka sér konu með valdi og gera hana að eiginkonu sinni. Við verðum að taka tillit til þeirra siða (sem þóttu sjálfsagðir á sínum tíma um heim allan) og venja sem tíðkuðust á hverjum tíma fyrir sig. Breytt siðferði hjá nútíma manninum á erfitt með að skilja þær aðferðir sem voru beittar t.d. gegn konum, eins og taka þær herfangi og annað slíkt. Á ritunartíma Bilíunnar var þetta nefnilega ekkert tiltökumál, og var allur heimurinn með svipaða eða eins siði. Því miður var þetta karlrembu samfélag og stjórnaðist einungis af karlmönnum, þess vegna var það algjör firra að Jesús sjálfur hafi átt eintal við samverska konu, sem var algert hneyksli að gera á þeim árum.

Jóhannesarguðspjall 4:9
9 Þá segir samverska konan við hann: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.] 

Bara það eitt að tala við hana gat jafnvel þýtt útskúfun úr gyðingasamfélaginu, ekki bara vegna þess mikla rígs sem var á milli samverja og gyðinga, heldur einnig vegna þess að karlmenn áttu ekki að tala við konur á þann máta sem Jesús gerði, sérstaklega ekki sem jafningja. Fleiri dæmi mætti telja upp þar sem Jesús gengur í berhögg við alla siði og venjur varðandi konur, og hef ég alltaf talið Jesús vera fyrsta jafnréttissinnann sem ritað er um fyrir vikið.  

VonÞess vegna ef horft er lögmál gyðinga og það borið saman við orð og verk Jesú, þá hlýddi Jesús ekki alltaf öllum þeim boðum og bönnum sem Gyðingar voru vanir, og þess vegna segir hann sjálfur að hann hafi uppfyllt lögmálið með fyrirmynd sinni. Því er afar mikilvægt að nota Jesú sem túlkunarlykil á GT, og horfa á orð og gjörðir hans sem gagnrýni hans á samtímamenn sína sem hann skammaði fyrir að hafa breytt orði Guðs sér til hagsbóta. Þetta verður að horfa á.

En þessi grein er orðinn nógu löng, ég skrifa meira þegar fleiri spurningar koma, ég vona bara að þetta hafi svarað einhverju varðandi trú mína.

Guð blessi ykkur öll og þakka ég lesturinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Frábært innlegg, Haukur & þér til zóma.

Steingrímur Helgason, 31.8.2009 kl. 01:47

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fín grein, en það er annars óþarfi að réttlæta sannfæringu sína fyrir öðrum. Hún er þín og þú heldur henni á meðan þér líður betur með það. 

Ég hnaut hinsvegar um þessa réttlætingu þína á illvirkjum Gamla testamentisins. Þú reynir að réttlæta það eftir þínu höfði, svo þér gangi betur með að leiða það hjá þér, enda ofbýður það hverri manneskju með snefil af siðferðis og réttlætiskennd.

"Horfa verður á allar staðreyndir til þess að skilja Gamla testamenntið (GT). Líta á allar aðstæður þess tíma, umhverfið siði og venjur hvers tíma fyrir sig."

Gallinn við þessa réttlætingu er sá að öll illskan er beint úr munni almættisins sjálfs, þar sem hann fyrirskipar og framkvæmir ólýsanleg illvirki, hefndir, morð og misþyrmingar. Enginn í bókinni fremur neitt slíkt af eigin dáð. Hafðu það hugfast. Þetta skrifast því ekki á tíðarandann heldur guð þinn, óskipt.

Með fullri virðingu annars.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.8.2009 kl. 03:37

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sé þessi bók hinsvegar að mestu skáldskapur dauðlegra manna, stolið og stífært úr sögumm annarra dauðlegra manna, eins og sýnt er að mestu, þá er rétt að skoða þetta sem barn síns tíma. Rétt eins og trúarbrögðin.

Það á þó engin áhrif að hafa á þína prívat trú. Hver og einn hefur einhverja slíka í einni mynd eða annarri sér til sefjunnar. Vörumerkin eru mörg en áhrifin svipuð, svo lengi sem menn halda þessu fyrir sig sjálfa og fordæmi ekki né geri mannamun eins og kjarni trúarbragðanna hljóðar upp á.( Það byrjar strax í Mósebókum ef þú ert ekki búinn að gleyma.) 

Jón Steinar Ragnarsson, 31.8.2009 kl. 03:45

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er í lagi að verja trú sína, en að verja trúarbrögðin og allt sem í ritum þeirra stendur, er ekki í lagi. Sérstaklega, þegar verið er að verja þann viðbjóð sem fyrir tilstilli guðs finnst í gamla testamenntinu.

Ekki má svo gleyma því að Jesú bætti um betur og innleiddi helvíti í allan fordæmingargrautinn og ofbeldið. Svo ekki skilja hann alveg undan í þessu samhengi.

Siðvitund þín rís hærra og er æðri þessum ritum. Það sannast af vilja þínum til að vera góð og elskandi manneskja. Þú þarft ekki að gefa trú þinni nafn, né skilgreina hana að mínu mati. Það veitir lítinn frið.

Mundu svo varðandi siði og trú Gyðinga í samhengi sögunnar um Samversku konunnar, að sá aðskilnaður er til kominn fyrir skipan guðs, sem og sérréttur gyðinga gagnvart öllum öðrum.

Talandi um að taka ritninguna úr samhengi, þá stendur í versinu á undan því sem þú nefnir:

"Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 22Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."

Þarna er hann raunar að segja hana óæðri og staðfestir lögmál þeirra. Við versus þið.

Á öðrum stað segir hann í Mattheusi, þar sem hann með semingi hjálpar Kanverskri konu eftir að lærissveinarnir eggja hann til þess og kallar hann hana og hennar líka hunda (þetta voru blakkir þrælar).:

"Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

Enda segir hann í versinu á undan (matt 15:24) "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Það veitti þér vafalaust meiri frið að þurfa ekki að verja þetta rugl.

Svo vil ég eki ergja þigmeir, en hugsaðu málið.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.8.2009 kl. 04:30

5 identicon

Að elska náunga sinn eins og sjálfan sig?

Er barnaræningin sem nú er í sviðsljósinu í USA og vítisenglar heimsins;

Eru það náungar þínir?

Elskar þú þá?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 08:13

6 identicon

Guðsteinn minn.. ég er alltaf að segja þér að vera ekki óheiðarlegur :)

Af hverju trúir Guðsteinn á guð?
Hann gerir það vegna þess að hann telur sig fá extra líf í lúxus 4ever... vs að vera pyntaður.

Tökum einfalt dæmi, svona byggist guddi upp
1 Guddi
2 Verðlaun
3 Pyntingar

þetta er faktískt hin "heilaga" þrenning....
Taktu burtu einn lið.. td númer 2... BANG enginn trúir á Gudda
Trú á guði er bara trú á verðlaun, hin heilaga þrenning, það sem krissar trúa faktískt á er
1 Verðlaun
2 Verðlaun
3 Pyntingar

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 09:29

7 identicon

Biblían er manngerð 100%, skrif hennar segja okkur ótvírætt að hún er skrifuð með mannlegum viðmiðum og siðgæði þess tíma sem hún var skrifuð á.
Enda er það svo að flestir menn eru með miklu meira siðgæði en guð biblíu..... það er orðið svo slæmt að menn hafa neyðst til að breyta biblíu svo menn telji talsmenn hennar ekki gargandi vitleysinga...
Ef guð hefði skrifað biblíu, verandi súperséni og alles, þá værum við ekki einu sinni að karpa um bókina, hún væri fullkomnin

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 09:34

8 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Zteingrímur - kærar þakkir!

Jón Steinar - það er sér kapítúli útaf fyrir sig að svara þér (svo sem ekki fyrsta sinn)!  Geri það seinna þegar ég hef betra næði.

Jón "Scout" - hver er náungi minn? Eina sem ég get gert fyrir þessa menn sem þú telur upp, er að biðja fyrir þeim, því ég veit að þeir fá sinn dóm þegar sá dagur kemur - og verður sá dómur réttlátur, svo mikið er víst.

Dokksi - *andvarp*

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 10:31

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Flottur pistill ...og einlægur

Persónulega finnst mér ekkert að því að eiga sinn Guð og jafnvel eitthvað einlægt og heiðarlegt við að vera ekkert feiminn við að viðurkenna það.

Eina sem fer fyrir brjóstið á mér er þegar fólk reynir að troða þeirri trú á aðra.. og ég tala nú ekki um þegar reynt er að hafa áhrif á samfélagsmyndina út frá þeirri persónulegri trú.

Tek það fram að ég er EKKI að væna þig um það

Heiða B. Heiðars, 31.8.2009 kl. 10:42

10 identicon

Ekki andvarpa Guðsteinn... ég er að benda þér á þetta af heiðarleika... ekki dissa mig bara vegna þess að ég er ekki með verðlaun :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:43

11 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Heiða - mér datt ekki hug um að þú værir að væna mig um það!  En ég þakka falleg orð og reyndar er ég meira en 100% sammála þér!

Dokksi - komdu þá einu sinni með rök ekki bara alhæfingar!

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 10:47

12 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Guðsteinn: Ég les reglulega færslurnar þínar en skrifa sjaldan athugasemdir. (Mér finnst gaman að lesa þær í staðinn)

Ég verð að koma með smá innlegg i þetta skiptið: Það er mikið til í því sem DoktorE segir hér... eða hvað?

Ef guð hefði skrifað biblíu, verandi súperséni og alles, þá værum við ekki einu sinni að karpa um bókina, hún væri fullkomnin

Gunnar Helgi Eysteinsson, 31.8.2009 kl. 11:04

13 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gunnar - gaman að sjá þig kominn á kreik, og mættir þú blogga oftar! Það sem alvarlega skortir hjá DoctorE eru haldbær rök, ef kæmi með þau myndi ég svara honum eftir því. En það neitar því enginn  trúaður maður með viti, að auðvitað er handskrift manna í biblíunni, og var það einmitt það sem Jesús gagnrýni.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 11:14

14 Smámynd: Arnar

Guðsteinn: Við verðum að taka tillit til þeirra siða (sem þóttu sjálfsagðir á sínum tíma um heim allan) og venja sem tíðkuðust á hverjum tíma fyrir sig. Breytt siðferði hjá nútíma manninum á erfitt með að skilja þær aðferðir sem voru beittar t.d. gegn konum, eins og taka þær herfangi og annað slíkt. Á ritunartíma Bilíunnar var þetta nefnilega ekkert tiltökumál, og var allur heimurinn með svipaða eða eins siði.

Bíddu nú við, hvað meinarðu með 'Breytt siðferði'???  Vilt þú þá ekki meina að siðferði þitt sé allt guðinum þínum að þakka?

Og, fyrir utan það hvað allt hefur breyst þá gleymir þú því sem ætti að vera aðal faktorinn í öllu þessu hjá þér, guð.

Hefur guð breyst?  Hverig getur guð á einum tíma puntki lagt blessun sína yfir eitthvað en fordæmt það seinna?  Er hann ekki alvitur?  Akkuru bjó hann ekki heiminn til þannig og stýrði honum þannig að menn þurftu aldrei að ræna sér konum?

Það gengur engan vegin upp að afsaka þetta með því að 'svona var þetta bara í gamladaga', þegar guðinn þinn var með puttana í öllu.  Mátt ekki gleyma því að þetta var á þeim tíma þegar guðinn átti að tala beint við fólk og var alltaf að skipta sér af.

Önnur pæling, það hefur ekkert spurst til guðsins þins í ~2000 ár og siðferði okkar hefur skánað til muna (miðað við sögur biblíunar amk.).  Ertu viss um að guðinn þinn boði gott siðferði?

Og svo þessi rök þarna; 'ef allir hinir gera það þá má ég það líka' passar engan vegin inn í þessa hugmynd þína um guðlegt súper siðgæði.

Arnar, 31.8.2009 kl. 11:20

15 identicon

Hver sá sem segir að biblían sé skrifuð/innblásin af Gudda, sá maður dregur guðinn sinn í bandspotta í gegnum holræsi hræsni og græðgi.

Muna að Sússi sagði GT vera fullkomið orð gudda, þar mætti engu breyta....
Muna líka að Sússi uppfyllti ekki bullið í GT, muna líka að Sússi er uppskáldaður af kuflum kaþólsku kirkjunnar.
Muna líka að biblían er skurðgoð/idol.

Bottom line: You are doing it wrong... ef guð er til þá getur biblía ekki verið neitt annað en epli númer 2, og þið krissarnir eruð allir búnir að gleypa eplið með kjarna og alles.

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:25

16 identicon

Þetta er svona pæling Andrés minn.

En ok krissar... hlustið á þetta, tekur smá tíma að byrja en hér er tekið á guðum gamla testaments, og takið eftir að þessi 2 sem þarna tala voru bæði ofurkrissar... sem byrjuðu að vera heiðarleg við sjálf sig...
Það er ekki hægt að trúa nema ef fólk er óheiðarlegt við sjálft sig.
Endilega gefið þessu séns, þó ekki sé nema bara fyrir mikið magn af uppl og heiðarlegu tali um þetta
Hlusta Guðsteinn... þú skuldar þér það...
http://video.google.com/videoplay?docid=-3048879793791495094

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 12:08

17 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég hef aldrei séð rafmagn en veit þó að það er til. Nýt þess daglega. Sama er með guðdóminn. Enginn hefur gengið jafn eftirminnilega aftur og ungur maður sem ég þekkti vel. Algerlega trúlaus og með jafn ákafa þrá í lifanda lífi að reyna að afsanna "hókuspókus-inn" í öllu "yfirnáttúrulegu" og DoktorE. Hann sannaði það eftirminnilega að hans eigin orð; "dautt er dautt" voru MIKILL misskilningur.  

Halelúja og amen í allar áttir!    

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 31.8.2009 kl. 12:51

18 identicon

Helga... það er hægt að sjá rafmagn sko... og plís ekki koma með að það sé ekki hægt að sjá vindinn... ok

Thank you, continue

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 13:02

19 identicon

Ánægður með að trúað fólk útskýri sínar hliðar á sannfæringu sinni á Guði/Jesú. Ég hef einmitt ekki sömu skoðanir en samt forvitinn á að fá meiri skilning á sannfæringu trúaðs fólks. Og því nokkrar spurningar;

- Var einhver tímapunktur þar sem Guð/Jesú opinberaði sig fyrir þér og þar með sannfærði þig um tilveru hans? Ef svo, hvernig var sú upplifun?

- Ertu sammála því að þú værir mjög líklega hindúi eða múslimi hefðir þú verið ættleiddur við ungaaldur til Indlands eða miðausturlanda?

kv.

Þröstur

Þröstur Hrafnkelsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 13:13

20 identicon

Mjög oft þegar fullorðið fólk tekur trú, þá tengist það inn í einhverjar persónulegar hörmungar.. eins og fíkn, sjúkdóma og annað.
Fólk tengir síðan hversdagslega atburði í sínu lífi sem merki um að eitthvað yfirnáttúrulegt sé að gerast...

Við sáum þetta td með' Láru sjáanda... ekkert stóðst í hennar spádómum EN samt var fólk sem trúði öllu sem hún sagði... kom smáskjálfti nokkrum dögum síðar: Nei nei sjáið Lára hafði rétt fyrir sér.

Persónuleg reynsla segir ekkert, er ómarktæk í umræðu um trúmál... þessi persónulega reynsla er bara heilinn að gera rangar tengingar.
Svo má fólk hér sem þakkar Gudda fyrir að gefa sér kanelsnúð á sunnudögum, gæla við sig flesta aðra daga... það fólk má spá í því að þúsundir barna létu lífið á meðan ég skrifaði þessa athugasemd.

Disclaimer
Börnin dóu ekki vegna þessarar athugasemdar ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 13:22

21 identicon

Ég trúi ekki á jólasveininn...ég veit hvernig sú mýta varð til. Ég trúi ekki á  páfann... veit hvaða saga er á bak við hann. Ég trúi ekki heldur á Jehóva...veit hvaðan sú fabúla er komin. Ég trúi ekki heldur á Davíð Oddsson...það þarfnast víst ekki skýringa. Hvernig væri að reyna standa á eigin fótum?

Freyr (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 13:47

22 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Heppinn að vera karlmaður, hann Doksi. Annars hefði hann átt á hættu að vera uppnefndur skeptík. Skephundur er einhvern veginn varla við hæfi í hans tilfelli þar sem hann er oftast léttur á´ðí. :)

En persónuleg reynsla er það sem við styðjumst við í daglegu lífi. Ég er skeptík fram í klær - en trúuð samt. Og í dæminu sem ég tók í fyrra kommentinu þá voru það nokkrir "heilar" saman komnir sem gerðu þarna sameiginlega illa útskýranlegar tengingar...

Ég get ekki láð trúlausum að taka sem dæmi, máli sínum til stuðnings, allan þann skelfilega fjölda loddara sem uppi vaða. Ég fór í Sálarrannsóknarskólann og sat þar tvo vetur mér til dundurs.. og sannleiksleitar. Fékk þá einkunn að hafa verið erfiðasti nemandi sem þeir höfðu nokkurn tíma haft - en jafnframt sá skemmtilegasti..   Spurði alveg endalaust og út í heilagan hörgul um allt sem mér fannst ekki liggja ljóst fyrir. Niðurstaða mín eftir þessa skólavist var sú að yfirgnæfandi meirihluta þess fólks sem hefur lífsviðurværi sitt af því að segja fyrir um hið ókomna, spá í allan andskotann og selja vægast sagt vafasama speki eru svikahrappar og ótíndir loddarar. Það eru þessi ca 5% sem eftir standa sem gera það að verkum að ég veit að ÞAÐ ER TIL fólk sem hefur hæfileika til að sjá, heyra og skynja fleira en flestir.

Það er svo enn annað - því mjög margir trúaðir eru á þeirri skoðun að spíritismi sé af hinu illa og fordæma hann af alefli. Ég hef td grun um að Guðsteinn Haukur sé ekki par hrifinn af spíritisma. Þó erum við góðir vinir og ég argasta spríra. Það sannar umburðarlyndi þessa hjartahreina vinar okkar.  

Ég þarf að bjóða ykkur heim í öllara og léttan málsprett eitthvert kvöldið, Guðsteinn Haukur og DoktorE. Stormsker hefur beðið um að fá að vera viðstaddur...   

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 31.8.2009 kl. 14:12

23 Smámynd: Arnar

Hey, Davíð Oddsson er þá amk. til (með heimilisfang og alles

Arnar, 31.8.2009 kl. 14:12

24 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Helga - kærar þakkir fyrir hjálpina.

Arnar ég svara þér seinna. Þú krefst vinnu! Púfff ...

Þröstur:

- Var einhver tímapunktur þar sem Guð/Jesú opinberaði sig fyrir þér og þar með sannfærði þig um tilveru hans? Ef svo, hvernig var sú upplifun?

Lestur og rannsóknir varð til þess að ég varð fyrir mestri "upplifun", mér þykir leitt að valda þér vonbrigðum með þá sögu, en sú upplifun var frábær, ogþar sem ég var að kukla með anda varð ég fyrir upplifun líka, en það er önnur saga, en báðar þessar upplifanir voru ... áhugaverðar!  :) En sé ekki eftir að hafa lent í því!

- Ertu sammála því að þú værir mjög líklega hindúi eða múslimi hefðir þú verið ættleiddur við ungaaldur til Indlands eða miðausturlanda?

Já, mjög líklega væri ég það. En hver veit, það er ekki gott að svara svona með fullri vissu.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 14:33

25 identicon

Þú ert ekki trúuð Helga, þú getur bara ekki verið sátt við þá staðreynd að þú átt eftir að deyja... and that's that.
Það er ekkert: "Þetta reddast", með dauðann.

Ég man þegar ég var lítill drengur og þurfti að ganga um myrka stíga á leið í skóla... þá ímyndaði ég mér að súperhetja myndi bjarga mér... engin sérstök hetja, bara einhver ímynduð vera til að fá þykjustu support; Ég vissi vel að hetjan var ekki til, að ég gæti ekki stólað á hana or nuthing :)
Ég man líka eftir fyrstu litlu jólunum mínum... ég var að líma englahár á eitthvað dæmi... ég man greinilega að ég hugsaði: Þetta er allt saman púra ævintýri :)

Freethinker since birth :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 14:36

26 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég VEIT að ég hrekk upp af með bravúr einhvern daginn og ég VEIT líka að hugurinn lifir það af þó hræið verði urðað. Munurinn á mér og GH (fyrir utan þetta obvíusa) er sá að ég finn ekki minnstu þörf hjá mér að sanna það fyrir öðrum. Er eiginlega steinhissa á mér að hafa gengið hér aftur á þessu ömurlega moggabloggi þar sem allt er ritskoðað í ræmur af yfirnáttúrulegum hálfvitum. Þetta er ein af örfáum síðum sem ég heimsæki af og til ennþá mér til gamans.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 31.8.2009 kl. 14:53

27 identicon

Þá er spurningin: Hvernig veistu að hugurinn lifir áfram... .?

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 14:55

28 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það hefur verið sannað fyrir mér. Það dugar mér. Skítt með hina. :)

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 31.8.2009 kl. 15:04

29 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir einlægan pistil Guðsteinn Haukur  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.8.2009 kl. 16:39

30 identicon

Hann Ólafur Skaptason á Hrífu hélt því einu sinni fram að Gunnar frændi sinn væri heiladauður. Skömmu síðar sást Gunnar í Bónus að kaupa gúrkur. 

Sannar það ekki ýmislegt?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 16:48

31 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Hvaða tilgangi þjónar þessi athugasemd þín Bergur?

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 16:50

32 identicon

Hún þjónar svo sem engum sérstökum tilgangi. Vildi bara koma þessu að.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 16:56

33 identicon

Doktorinn var að gefa í skyn að hugurinn lifði ekki dauðann af ... en sagan af Gunnari sýnir fram á hið gagnstæða.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 16:58

34 identicon

Góð færsla Guðsteinn.

En eitt sem ég velti fyrir mér þegar ég les commentin frá þessum sem kallar sig "DoctorE". Nú sér maður oft trúlausa afneita æðri máttarvöldum og halla sér að vísindunum.

Þá langar mig að spyrja þá: Ef vísindin geta ekki útskýrt það er það þá ekki til? Og ef það hefði verið viðhorfið í gegnum aldirnar, hversu langt hefðu vísindin náð?

M.b.k.
Þórður Ingi

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 17:24

35 identicon

Þórður... trúarbrögð eru ekki bara stjórntæki & peningaplokk... þau eru líka misheppnuð vísindi.

Trúarbrögð héldu aftur af vísindum í margar aldir, við gætum fært rök fyrir því að menn myndu búa á Mars í dag ef ekki hefði verið fyrir bullið í trúarbrögðum.

Þó svo að vísindin geti ekki útskírt allt á einhverjum tímapunkti, þá er það bara staða þekkingar okkar... og ekkert annað.
Takið eftir að EKKERT yfirnáttúrulegt hefur sannast frá upphafi... takið líka eftir því hvernig bókin ykkar býr ykkur undir þetta.
Engar sannanir eru sannanir
Þeir sem benda á ruglið í bókinni ykkar eru illmenni sem þið eigið að forðast.

Muna svo að segja Meeee meeee eins og hinir sauðirnir, allir saman í kór.

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 17:48

36 identicon

Já reyndar sé ég það... en samt ekki þig Andrés, en margir kristnir forðast mig eins og heitan eldinn... margir hafa einmitt slengt á mig þessari setningu úr biblíu :)
Þessi setning er tilkomin vegna þess að skríbentar biblíu vildu ekki að sauðirnir hlustuðu á gagnrýnisraddir, það gæti skemmt allt heila plottið :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 19:49

37 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Á ritunartíma Bilíunnar var þetta nefnilega ekkert tiltökumál, og var allur heimurinn með svipaða eða eins siði.

Þannig að guðinn þinn var bara barn síns tíma?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.8.2009 kl. 20:35

38 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Flottur pistill Guðsteinn Haukur. Doktorinn alltaf jafn skemmtilegur. Rosalega verður hann hissa þegar hann fer yfir móðuna miklu ;)

Guðmundur St Ragnarsson, 31.8.2009 kl. 20:44

39 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Guðsteinn: Hefurðu lesið pistil dr. Svans um siðferði? Ef ekki, þá mæli ég með því.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 31.8.2009 kl. 20:46

40 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Hjalti:

Þannig að guðinn þinn var bara barn síns tíma?

Nei, en hann varð að tala til fólks þess tíma sem var þá. Ekki satt?

Guðmundur - já það verður forvitnilegt!

Tinna - og hvað er nýtt í honum? Ég er búinn að lesa hann.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 20:50

41 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Guðsteinn: Nei, en hann varð að tala til fólks þess tíma sem var þá. Ekki satt?

Jú. Hvað ertu að segja? Að það hafi verið allt í lagi fyrir guð að fyrirskipa hluti sem okkur finnst augljóslega siðferðislega rangir (t.d. þjóðarmorð) af því að fornaldarfólk sá ekkert athugavert við það?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.8.2009 kl. 20:54

42 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Hjalti - líf var lítið metið á þessum árum og var tíðarandinn sá, t.d. voru hér á landi útburðir og annað ógeð sem okkur finnst viðbjóður í dag.

Voru þá forfeður okkar siðferðislega brenglaðir? Og þá er ég að tala um fyrir og eftir Kristnitöku, því þetta viðgekkst jafnvel fram á 20 öldina. Alveg eins og tíðarandinn var þannig á Íslandi, var sama uppá teningin í Ísrael á þessum árum.  

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 21:08

43 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég var nú bara að hugsa um þessa siðferðislegu afstæðishyggju sem þú setur fram hér að ofan, að við verðum að taka tillit til tíma og menningar þegar GT er lesið. Svanur kemur dálítið inn á þetta í pistlinum, þó sú pæling sé kannske ekki "ný" í sjálfu sér.

Mig langar að vita hvort þú teljir siðaboð kristninnar rétt vegna þess að þau séu frá Guði komin, eða að Guð hafi fyrirskipað þau vegna þess að þau eru rétt samkvæmt einhverjum alheimsstaðli sem jafnvel Guð  sjálfur fylgir. Hjalti orðar þetta ágætlega í innleggi sínu hér að ofan (kl. 20:54).

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 31.8.2009 kl. 21:19

44 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég veit ekki hvort að það sér rétt að kalla þetta "siðferðislega brenglun" eða ekki.

En hvernig er það afsökun fyrir guðinn þinn? Var allt í lagi fyrir guðinn þinn að fyrirskipa hluti sem okkur finnst augljóslega rangir af því að fólkið á þeim tíma fannst ekkert athugavert við það?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.8.2009 kl. 21:23

45 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Mér sýnist þú ekki trúa á algild siðaboð frá Guði komin. Nú er tíðarandinn allt annar en hann var. Sem dæmi má nefna að skilnaðir eru ekki taldir sérlega slæmir, samkynhneigð er almennt viðurkennd, og fæstum finnst mikið vit í að gefa allar eigur sínar til fátækra. Eru þau boð og bönn Biblíunnar sem tengjast þessum hlutum þá ekki gild lengur? Hvers vegna (eða ekki)?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 31.8.2009 kl. 21:27

46 identicon

Vóóó.... halda kristnir menn að siðferðiskennd Guðs sé að breytast með tímanum, þ.e. að aðlagast og fylgja siðferðiskennd mannsins??? Er hann að fylgja okkur eða við honum?

Þröstur Hrafnkelsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 22:50

47 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Þröstur - nei, þú ert að misskilja mig, Guð er hinn sami og hefur alltaf verið, ég bendi á misjafnt siðferði mannsins, ekki Guðs. Eins bendi ég á að gera verður greinarmun á blóðugum sögum, sem reyndar eru flestar hluti af mannkynssögunni og trú. Boðorðin 10 dekka allt það siðferði sem Guð hefur, enda er það frá honum sjálfum komið.

Hjalti - sjá svar mitt til Þrastar.

Tinna - Pall talaði um að gefa af alsnægtum sínum, eins veit ég um dæmi þar sem fólk hefur gefið allt sitt til fátækra. Þannig auðvitað er þetta ennþá í gildi. Samkynhneigðum á að taka fagnandi inní kirkjurnar, og útsýrð afstaða kirkjunnar til þessara mála, með góðu - ekki með illu.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.8.2009 kl. 23:15

48 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

"Boðorðin 10 dekka allt það siðferði sem Guð hefur, enda er það frá honum sjálfum komið."

Eru þau sumsé algild, eilíf og óbreytanleg? Hvort ferðu þá eftir úfgáfunni úr annarri Mósebók 20:2-17 eða fimmtu Mósebók 5:6-21?

Reyndar er alveg sama hvora útgáfuna þú velur: hvað finnst þér um annað boðorðið? Brot á því er það sem mætti kalla 'victimless crime'. Ferðu eftir því? Er brot á því siðferðislega rangt? Ef svo er, er það bara siðferðislega rangt vegna þess að Guð sagði það?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 31.8.2009 kl. 23:39

49 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Guðsteinn: ...ég bendi á misjafnt siðferði mannsins, ekki Guðs.

Þannig að þegar það stendur í Gamla testamentinu að guð hafi skipað Ísraelsmönnum að fremja þjóðarmorð eða að taka einhvern af lífi fyrir að safna eldiviði á laugardegi, þá er það rangt? Sagði guðinn þinn það í raun og veru aldrei?

Guðsteinn: Boðorðin 10 dekka allt það siðferði sem Guð hefur, enda er það frá honum sjálfum komið.

Og er hitt ekki frá honum komið? En siðferði guðs er þá þannig að það er í lagi að refsa börnum fyrir glæpi forfeðra þeirra?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.8.2009 kl. 23:47

50 identicon

Ef þú Guðsteinn og spúsa þín gerið eitthvað af ykkur, er það réttlátt að börnin ykkar þurfi að taka út refsingu, og barnabörnin, og barnabarnabörnin etc etc
Þú kvartar undan Icesave... hvers vegna kvartar þú ekki undan biblíu sem er miklu verri en icesave...

DoctorE (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 09:18

51 Smámynd: Arnar

Guðsteinn: Boðorðin 10 dekka allt það siðferði sem Guð hefur, enda er það frá honum sjálfum komið.

Þú veist væntanlega að boðorðin 10 eru úr GT, sem þú hefur sagt að sé 'bara' skilaboð guðs til gyðinga.  Held ég hafi bent á það áður.

Og þú getur ekki skýlt þér á bakvið það að mannkyn breytist, guðinn þinn breyist aldrei.  Gangvart honum hlýtur alltaf að vera slæmt að drepa og alltaf slæmt að stela.  Samt hvetur hann og styður bæði morð (bæði einstaklinga og heilu þjóðanna) og þjófnað(*) á einhverjum tímapunkti en fordæmir þau á öðrum.  Annað hvort er siðferði guðsins algilt eða ekki.  Ef það er ekki algilt heldur bara háð dutlungum guðsins á hverjum tíma er ekkert að marka það.

(*) Ef þú veist ekki þetta með þjófnaðinn; þá segir guð Móses að láta alla gyðinga frá 'lán' hjá nágrönnum sínum í Egyptalandi áður en Móse lagði af stað í 40 ára labbitúr, get flett því upp ef þú kannast ekki við þetta.

Arnar, 1.9.2009 kl. 10:35

52 identicon

Hvernig er það, langar þig að búa í einræðisríki? Þetta ímyndaða himnaríki trúaðra er ekkert annað en einræðisríki. Þarna munt þú sitja og allt sem þú gerir, segir og hugsar mun guð leggja mat á, og ef honum finnst þú gera, segja eða hugsa eitthvað sem honum líkar ekki, þá mun hann senda þig í neðra þar sem þú munt kveljast til eilífðar. Það getur bara ekki verið að nokkur heilbrigður einstaklingur sé með þetta á óskalistanum.

Doctore, hvernig er það, ætlar mogginn ekkert að aflétta banninu? Ef svo er ekki, ætlar þú ekkert að opna síðu á einhverjum öðrum stöðum, t.d. á vísi.is? Vonandi onar þú síðu sem fyrst, þín er sárt saknað.

Valsól (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 11:50

53 identicon

Ég er með annað blogg... langar að vísu að blogga á blog.is... en mbl tóku orð mín um sjáandann ógurlega svo nærri sér að mar bara á ekki orð :)
Og ég á heldur ekki nein jesúspil eins og JVJ til að flagga framan í mbl menn.. so.

Vinsældir á nýja blogginu aukast með hverjum degi... :)
http://doctore0.wordpress.com/

Vonandi vakna mbl menn upp og sjá að þeir eru bara hallærislegir að halda í þetta bann

DoctorE (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 11:58

54 identicon

Takk fyrir þetta Doksi, læt þetta berast.

Valsól (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 17:17

55 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Boðorðin 10 dekka allt siðferði Guðs segir þú. Athyglivert.

Þegar þau bárust ofan af Sínaífjalli fyrir 3000 árum eða svo, þá byrjaði guð þessi á að fyrirskipa morð á 30000 manns, sem voru að dýrka aðra guði (gullkálfinn) Á þeim tímapúnkti hafði fólkið ekki séð boðorðin og vissi ekki að það mætti ekki dýrka aðra guði. Þaðrna er siðferði og réttlæti guðs rétt lýst.

Samkvæmt Mósebók eru boðorðin þessi:

1. "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig."
2."Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín."
3"Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma."
4"Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann."
5."Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér."
6."Þú skalt ekki morð fremja."
7."Þú skalt ekki drýgja hór."
8."Þú skalt ekki stela."
9."Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum."
10."Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."
Þú tekur eftir að þrjú fyrst snúast einvörðungu um hann sjálfan. Að þú skulir hafa hann einan (annars...)
Hin tvö fjalla um líkneski tákn og myndir og það að hafa nafn hans á vörum í hégóma og sjálfhverfu.  Margir myndu segja að þeir sem telja sig útvalda trúmenn sú ansi tæpir hvað þetta varðar.
Fimm segir þér að virða foreldra þína í þeim tilgangi að verða langlífur. (Merkilegt boðorð en raunar ekki, þar sem að á öðrum stað stendur að þeir dríungar, sem ekki gera það skuli grýttir við borgarmörkin)
Sjötta, til tíunda taka fram tiltölulega sjálfsagða hluti. Ansi takmarkaða miðað við flóru mannlegra athafna og freistni. Tíunda er raunar tvítekning á því sem felst í öðrum að ofan.
Ekki drepa, ekki stela, ekki hórast, ekki ljúga upp á fólk og ekki freistast í þessa ákveðnu hluti hjá náunga þínum: Húsið, konuna, þæla og ambáttir (sjálfsögð eign) Uxa og Asna.
Segðu mér Guðsteinn:Er guð þinn ekki merkilegri en þetta?
Og að lokum: Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þú birtir svona vitnisburð, enda siður í þinni kirkju. Þú lætur yfirskriftina hljóma eins og að þú sért ítrekað beðinn eða spurður um afstöðu þína, sem er rangt. Ekki hafa trúlausir gert það og ekki trúbræður.
Er ástæðan kannski einhver innri glíma vegna þessara hluta. Að þetta meiki ekki sens einhvernveginn og að þú þurfir að þylja þessa möntru til að bægja burt efasemdunum.
Ef svo er: Ber þessi glima þín vott um innri frið? 

Jón Steinar Ragnarsson, 1.9.2009 kl. 20:12

56 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lestu annað boðorðið sérlega vel og raunar hið þriðja líka. Hvað er almættið að segja þarna?

Væri það kannski efni í annan pistil?

Jón Steinar Ragnarsson, 1.9.2009 kl. 20:14

57 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Að lokum:

Af hverju skyldu efasemdarmenn og trúleysingjar sækja svona að þér, þegar þú skrifar pistla á borð við þetta?

Ég þykist vita það. Þú gerir það ekki í greininni, sem þú gefur fyrirheit um í inngangnum. Þér tekst ekki að skýra og réttlæta afstöðu þína á sannfærandi og trúverðugan máta.  Það eina sem ég sé er að þú ert gargandi sekur við annað boðorðið, sem og allir þeir trúbræður þínir, sem mæra þig fyrir skrifin, en láta hjá líða að hjálpa þér við að skýra rökstuðning þinn.

Þú gefur það upp sem meginástæðu trúar þinnar að þú öðlist frið, en þér tekst ekki að skýra hvernig eða hvers vegna. 'i stað þess reynir þú að réttlæta ritningu þína, sem barn síns tíma og væntanlega ómarktæka sem slíka.  Bók, sem engin leið er að verja í heild sinni né í hlutum. Engin leið að líta framhjá í samhengi kristinnar trúar. 

Þú vilt koma í gegn sem góviljaður og vammlaus maður, sem ég efast ekki um að þú sért.  Þessvegna skrifar þú þetta yfirklór og þér einum til sefjunnar, því fáttí þessum ritum samræmist þínu innra mannlega siðgæði.  Málið er bara að þú ert æði að reyna að halda og sleppa og það er ekki hægt, því miur.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.9.2009 kl. 20:31

58 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Að lokum:

Af hverju skyldu efasemdarmenn og trúleysingjar sækja svona að þér, þegar þú skrifar pistla á borð við þetta?

Ég þykist vita það. Þú gerir það ekki í greininni, sem þú gefur fyrirheit um í inngangnum. Þér tekst ekki að skýra og réttlæta afstöðu þína á sannfærandi og trúverðugan máta.  Það eina sem ég sé er að þú ert gargandi sekur við þriðja boðorðið, sem og allir þeir trúbræður þínir, sem mæra þig fyrir skrifin, en láta hjá líða að hjálpa þér við að skýra rökstuðning þinn.

Þú gefur það upp sem meginástæðu trúar þinnar að þú öðlist frið, en þér tekst ekki að skýra hvernig eða hvers vegna. 'i stað þess reynir þú að réttlæta ritningu þína, sem barn síns tíma og væntanlega ómarktæka sem slíka.  Bók, sem engin leið er að verja í heild sinni né í hlutum. Engin leið að líta framhjá í samhengi kristinnar trúar. 

Þú vilt koma í gegn sem góviljaður og vammlaus maður, sem ég efast ekki um að þú sért.  Þessvegna skrifar þú þetta yfirklór og þér einum til sefjunnar, því fáttí þessum ritum samræmist þínu innra mannlega siðgæði.  Málið er bara að þú ert æði að reyna að halda og sleppa og það er ekki hægt, því miður.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.9.2009 kl. 20:42

59 identicon

Hugsiði málið smá... enginn skrif liggja eftir Sússa.. bara vitnisburður einhverra sem enginn veit hver var.
Engar heimildir eru til um Sússa utan biblíu... EKKERT, ZERO

Jesú var búinn til af frumkirkjunni, það er staðreynd; Merkilegt að fólk VILJI láta hafa sig að fíflum, óskiljanlegt

DoctorE (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 07:55

60 identicon

Upplýsingar fyrir ykkur....  þið viljið fá uppl, er það ekki :)

Christianity: A history (2009)
http://doctore0.wordpress.com/2009/09/02/christianity-a-history-2009/

DoctorE (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 12:10

61 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðsteinn! Það er bara til ein alvöru trú og hún er að trúa á kraftinn í sjálfum sér og góðu alheimsorkuna. Kirkja þeirrar trúar getur að því er ég best hef skilið verið jarðarkringlan og góða alheimsorkan í himinhvolfinu. Þarf ekki neinar sögur né trúarbrögð til þéss. Góða alheimsorkan veri með okkur öllum. Kv frá einni sem ekki trúir á annað en sína sannfæringu og náungakærleika.(Úff líklega ekki gott eða hvað?)

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.9.2009 kl. 20:59

62 identicon


Hef verið að lesa þessar færslur og mig langar til að útskýra afhverju ég
er trúuð. Ég lenti ekki í neinum hörmungum sem voru þess valdandi að ég
varð trúuð. Ég kynntist einfaldlega fólki sem átti lifandi trú og ég sá að
það átti eitthvað sem ég átti ekki. Eitthvað sem gaf þeim innri frið, gleði
og hamingju. Mig langaði að eignast þetta sem þau áttu og bað til Guðs um
að gefa mér þetta líka. Ég fór að lesa Biblíuna og sækja samfélag trúaðra.
Einn daginn þá ákvað ég svo að fylgja Jesús og frelsaðist. Ég tek það fram
að ég er ekki dugleg að rökstyðja trú mína, ég einfaldlega TRÚI...trúi að
Biblían sé orð Guðs, ég get ekki fært rök fyrir öllu því sem ég les um í
Biblíunni og það nægir mér að vita að Guð hefur haft sínar ástæður fyrir
öllu því sem hann gerði, (Naiv? Já ef það er það sem þarf) ég þarf ekki að
skilja hann til fulls, enda hver getur það? Ekki ég og ekki Guðsteinn.
Verðlaunin sem fylgja því að trúa á Guð er friður, gleði og lífshamingja og
svo á endanum eilíft líf sem allir geta öðlast sem taka á móti syni Guðs,
Jesú Kristi. Ég tek undir það sem einhver sagði hér á undan; að þeir sem
ekki trúa og hæðast að öllu sem snýr að Kristinni trú verða hissa og
trúlega skelfdir, þegar þeir mæta skapara sínum sem mun spyrja: Hvað gerðir
þú við son minn Jesú Krist?

Áslaug Herdís Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 15:57

63 identicon

Hmm það fór eitthvað úrskeiðis hjá mér, vona að þetta skiljist

Áslaug Herdís Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Guðsteinn Haukur

Guðsteinn Haukur Barkarson
Guðsteinn Haukur Barkarson

"Our life is a gift from God,
what we do with that life,
is our gift to God"

Höf. óþekktur

Sjá höfundasíðu fyrir ákveðna skilmála og upplýsingar um bloggarann 

Önnur snilld...

Hvaða þjóðir heimsækja þetta blogg?

free counters

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 587825

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Skoðanna könnun

Á að aðskilja ríki og kirkju?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband